Velta á skuldabréfamarkaði í dag nam 20,6 milljörðum króna í dag, en eins og VB hefur ítrekað sagt frá hefur veltan verið gríðarlega mikil frá því í seinni hluta síðustu viku. Hámarki náði hún á mánudaginn þegar hún var 23,7 milljarðar. Mesta veltan var í flokknum RIKB 19 sem eru óverðtryggð ríkisskuldabréf. Meðalvelta á skuldabréfamarkaði í þessum mánuði er rúmir sjö milljarðar.

Veltan var 17,5 milljarðar með óverðtryggð bréf en rúmir þrír milljarðar með verðtryggð bréf. Verðbólguvæntingar hafa aukist á undanförnum dögum og er það einkum vegna tillagna um skuldaniðurfellingu sem verða kynntar síðar í vikunni. Þá birti Hagstofan tölur í morgun sem benda til þess að tólf mánaða verðbólga hafi heldur aukist en ekki minnkað eins og til stóð.