Í morgun fóru í gegn viðskipti með tæplega 16 milljónir hluta, eða sem nemur nærri 6% hlut, í fjölmiðla- og fjarskiptafélaginu Sýn. Gengið í viðskiptunum var 64 krónur á hlut og því var kaupverð um einn milljarður króna. Meðal seljenda var Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, LSR, sem seldi 1,9% hlut fyrir 320 milljónir króna samkvæmt flöggunartilkynningu.

Fyrir rúmri viku varð nýstofnaða fjárfestingafélagið Gavia Invest stærsti hluthafi Sýnar eftir að hafa keypt 12,7% hlut Heiðars Guðjónssonar, fráfarandi forstjóra Sýnar, fyrir ríflega 2,2 milljarða króna.

Gavia, sem eignaðist 16,1% hlut í Sýn í síðustu viku, fór fram á að stjórn Sýnar boði til hluthafafundar þar sem ný stjórn verður kjörin.

Jón Skaftason leiðir hópinn að baki Gavia Invest en að honum koma einnig InfoCapital, fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, E&S 101 ehf., sem er í eigu Jonathan R. Rubini, Andri Gunnarsson og Mark Kroloff, en Rubini hefur lengi borið nafnbótina ríkasti maður Alaska.

Á fimmtudaginn var send út flöggunartilkynning um að eignarhlutur sem skráður er á Arion banka hafi á síðustu dögum aukist úr 3,4% í 8,7% þar sem veltubækur bankans fóru yfir 5%.

Fréttin var uppfærð eftir að send var út flöggunartilkynning vegna sölu LSR.