Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 1,08% í umtalsverðum viðskiptum í dag og var lokagildi vísitölunnar 1.398,99 stig. Mest var hækkunin á gengi bréfa Haga, eða 2,03%, en gengi Icelanndair hækkaði um 1,86% og TM um 0,98%. Gengi bréfa Eikar fasteignafélags lækkaði um 0,76% og Reita um 0,63%.

Velta á hlutabréfamarkaði nam 3.994,8 milljónum króna og var veltan langmest í viðskiptum með bréf Marels, eða fyrir 2.774,2 milljónir. Félagið keypti sjálft töluvert af bréfum í dag, annars vegar vegna framkvæmd á kaupréttarsamningum við stjórnendur félagsins og einnig keypti félagið 12 milljónir hluta í sjálfu sér sem eru hugsaðir sem endurgjald í mögulegum fyrirtækjakaupum.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,1% í dag í 8 milljarða króna viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 0,8 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,3% í 7,2 milljarða viðskiptum.