*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 5. október 2020 13:18

Viðskipti með bréf M&C stöðvuð

Auglýsingastofan M&C Saatchi, sem Íslandsstofa valdi fyrir 300 milljóna króna herferð, hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2019.

Ritstjórn
Hlutabréf M&C Saatchi eru skráð í kauphöllina í Lundúnum.
epa

Viðskipti með hlutabréf auglýsingastofunnar M&C Saatchi hafa verið stöðvuð þar sem félagið hefur ekki enn skilað ársreikningi fyrir síðasta ár. M&C Saatchi segir að tafirnar stafi af villu í bókhaldi félagsins. Gert er ráð fyrir að birta ársreikninginn á næstu vikum.

Sjá einnig: Kæra Ríkiskaup vegna átaksverkefnis

Í vor valdi Íslandsstofa áðurnefnt félag til þess að sinna 300 milljóna króna markaðsherferð fyrir íslenska ferðaþjónustu. Alls mun ríkið verja einum og hálfum milljarði króna í verkefnið Ísland – saman í sókn. M&C Saatchi sá um svonefnda öskurherferð sem gerði garðinn frægan í sumar.

Sjá einnig: Gera það gott eftir öskurherferðina

M&C Saatchi segir að hagnaður þess hafi dregist saman um ríflega fimmtung á milli ára en hann nam 18,3 milljónum punda árið 2019, andvirði 3.285 milljóna króna. Félagið segir að sala þess það sem af er ári hafi verið góð og að afkoman hafi verið jákvæð á öðrum ársfjórðungi 2020. Frá þessu er greint á vef Reuters.

Viðskipti með hlutabréf M&C voru stöðvuð 30. september og stóðu bréfin þá í um 58 pundum. Í upphafi árs stóðu hlutabréf félagsins í 105 pundum en hæst hafa þau farið í 193 pund síðasta árið.