Heildarviðskipti með hlutabréf í janúarmánuði námu 24.810 milljónum króna eða 1.181 milljón á dag. Það er 9% lækkun frá fyrri mánuði en í desember námu viðskipti með hlutabréf 1.300 milljónum á dag. Þá er þetta einnig lækkun frá sama tímabili fyrir ári síðan, en í janúar 2014 námu viðskiptin 1.246 milljónum á dag. Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti Kauphallarinnar fyrir janúarmánuð.

Mest voru viðskipti með hlutabréf Icelandair Group en þau námu 7.443 milljónum króna. Næst komu hlutabréf HB Granda en viðskipti með þau námu 4.006 milljónum. Þá námu viðskipti með bréf Haga 2.871 milljón og Marels 2.755 milljónum. Úrvalsvísitalan hækkaði um 5,4% milli mánaða og stendur nú í 1.381 stigi.

Í lok janúar voru hlutabréf sautján félaga skráð á Aðalmarkaði og First North Iceland og nemur heildarmarkaðsvirði þeirra 734 milljörðum króna, en það var 680 milljarðar í lok desember.

Á skuldabréfamarkaði námu heildarviðskipti 98 milljörðum króna í janúarmánuði eða 4,7 milljörðum á dag, en það er 40% lækkun frá fyrra ári þegar þau námu 7,8 milljörðum á dag. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,9% í mánuðinum og stendur í 1.084 stigum.