Kauphöll Íslands hefur gefið út viðskiptayfirlit fyrir októbermánuð. Þar kemur fram að viðskipti með hlutabréf í mánuðinum námu 32.244 milljónum króna, eða 1.402 milljónum á dag. Er það 78% hækkun frá fyrri mánuði, en í september námu viðskipti með hlutabréf 786 milljónum á dag. Viðskiptin aukast einnig mikið á milli ára eða um 68%, en í október 2013 námu viðskiptin 855 milljónum á dag.

Mest voru viðskipti með hlutabréf í Marel og námu þau 6,3 milljörðum króna. Þar á eftir kemur Icelandair Group með viðskipti upp á tæpa 6,2 milljarða, VÍS með 6,15 milljarða, Eimskip með tæpa 2,4 milljarða og Hagar með tæpa 1,9 milljarða.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,97% milli mánaða og stendur nú í 1.186 stigum. Á aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina, 27,5%, Íslandsbanki með 18,6% og Landsbankinn með 14,8%.

Í lok október voru hlutabréf 17 félaga skráð á Aðalmarkaði og First North Iceland og nemur heildarmarkaðsvirði þeirra 637 milljörðum króna, en það nam 523 milljörðum króna á sama tíma á síðasta ári.