Heildarviðskipti með hlutabréf í október námu 41,1 milljarði eða 1.787 milljónum á dag. Það er 13% hækkun frá fyrri mánuði, en í september námu viðskipti með hlutabréf 1.577 milljónum á dag.  Þetta er 29% lækkun á milli ára (viðskipti í október 2017 námu 2.519 milljónum á dag).

Mest voru viðskipti með bréf Marel, 6,8 milljarðar, Haga, 4,6 milljarðar, N1, 4,2 milljarðar, Sýnar, 3,9 milljarðar, og Arion banka, 3,8 milljarðar.

Úrvalsvísitalan (OMXI8) hækkaði um 1,1% á milli mánaða og stendur nú í 1.624 stigum.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina, 23,0% (24,7% á árinu), Fossar markaðar með 21,6% (12,5% á árinu) og Íslandsbanki með 17,4% (15,0% á árinu).

Í lok október voru hlutabréf 23 félaga skráð á Aðalmarkaði og Nasdaq First North á Íslandi. Nemur heildarmarkaðsvirði skráðra félaga 978 milljörðum króna (samanborið við 1.002 milljarða í september).