Í dag hefjast viðskipti með hlutabréf Reita fasteignafélags á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Skráning Reita á markaðinn er sú fyrsta á þessu ári.

„Skráning Reita á Aðalmarkað Nasdaq Iceland veitir fjárfestum áhugavert fjárfestingartækifæri í stærsta fasteignafélagi landsins í einkaeigu,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita í tilkynningu. „Efnahagsreikningur félagsins er sterkur og við njótum góðra kjara á lánsfjármögnun. Auk þess höfum við skýra arðgreiðslustefnu. Við bjóðum nýja hluthafa velkomna og hlökkum til að vinna með þeim sem og nýjum fjárfestum í framtíðinni.“

Reitir fasteignafélag er stærsta þjónustufyrirtæki landsins á sviði útleigu á atvinnuhúsnæði. Félagið leggur áherslu á skrifstofuhúsnæði, verslunarhúsnæði og hótelbyggingar á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir í eigu félagsins eru um 130 talsins og nálægt 410 þúsund fermetrum að stærð.

„Við bjóðum Reiti hjartanlega velkomna á Aðalmarkaðinn,” segir Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Skráning Reita er góður áfangi í uppbyggingu hlutabréfamarkaðarins og styrkir til muna fasteignageirann á honum. Við óskum Reitum, starfsfólki félagsins og hluthöfum farsældar á markaði.”