Opið hefur verið fyrir viðskipti með íbúðabréf, útgefin af Íbúðalánasjóði, í Kauphöllinn í morgun. Á sama tíma voru niðurstöður starfshóps stjórnvalda, um stöðu og horfur Íbúðalánasjóðs, til umræðu í ríkisstjórn, samkvæmt því sem fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Á sama fundi er fjárlagafrumvarp næsta árs til umræðu samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Grípa þarf til aðgerða

Viðskiptablaðið hefur greint frá rekstrarvanda sjóðsins og beðið hefur verið eftir niðurstöðum starfshópsins til að ríkisstjórnin geti ákveðið næstu skref til að tryggja sjálfbæran rekstur Íbúðalánasjóðs án þess að skattgreiðendur þurfi að leggja honum til milljarða króna árlega næstu árin. Viðurkennt er að sjóðurinn þurfi að minnsta kosti 10-14 milljarða króna til að bæta eiginfjárstöðu sína en það leysir ekki rekstrarvanda til frambúðar.

Rólegt yfir markaðnum

Um klukkan tíu í morgun mátti sjá að rólegt var yfir viðskiptum með íbúðabréf og virtist sem beðið væri eftir frekari fréttum um hvað ætti að gera. Ekki hefur verið gefið út hvort eitthvað verði tilkynnt eftir ríkisstjórnarfund um ákvarðanir stjórnvalda eða niðurstöður starfshópsins. Þessar upplýsingar eru því á vitorði fárra en geta haft mikil áhrif á skuldabréfamarkaðinn.

Kauphöllin getur ekki tjáð sig

Þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir upplýsingum í Kauphöllinni, um þessa stöðu, fengust þær upplýsingar að ekki væri hægt að tjá sig um málefni einstaka útgefenda.