Fyrstu viðskipti með hlutabréf sameinaðs félags Kviku og TM voru hringd inn við opnun markaða Nasdaq Iceland í morgun.

Við sameininguna verður Marinó Örn Tryggvason forstjóri sameinaðs félags og Sigurður Viðarsson verður áfram forstjóri TM trygginga hf., sem er dótturfélag sameinaðs félags.

Fyrir viku síðan samþykktu hluthafar Kviku og TM sameiningu fyrirtækjanna, auk Lykils fjármögnunar, dótturfélags TM. Þar með var búið að uppfylla alla fyrirvara í samrunasamningi félaganna frá 25. nóvember síðastliðnum. Samkeppniseftirlitið heimilaði samrunann þann 26. febrúar síðastliðinn og Fjármálaeftirlitið veitti samþykki sitt fyrir samrunanum þann 9. mars.