Viðskipti voru stöðvuð í Kauphöllinni í New York strax eftir opnun markaða eftir að S&P 500 vísitalan hafði lækkað um 7% í fyrstu viðskiptum. Viðskipti eru stöðvuð í 15 mínútur þegar vísitalan fellur um 7% innan dags en þetta er í þriðja sinn á sex dögum sem viðskipti eru stöðvuð. Viðskipti voru einnig stöðvuð á mánudaginn í síðustu viku og svo aftur á fimmtudaginn.

Vísitalan stendur nú í 2.490 stigum eftir að hafa lækkað um 8,1% í fyrstu mínútum viðskipta og hefur lækkað um rúmlega 26,4% frá því hún náði síðasta hámarki sínu þann 19. febrúar síðastliðinn.

Uppfært 13:48:

Vísitalan hefur nú lækkað um rúm 11% eftir að viðskipti voru opnuð á ný núna klukkan 13:45. Fari lækkunin yfir 13% verða viðskipti stöðvuð að nýju í 15 mínútur, og fari hún yfir 20% eftir það verða þau stöðvuð út daginn.