*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 26. nóvember 2020 13:14

Viðskipti við Bretland taka breytingum

Um áramót lýkur aðlögunartíma vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og þar með Evrópska efnahagssvæðinu.

Ritstjórn
Rishi Sunak fjármálaráðherra Bretlands.
epa

Breytingar verða í viðskiptum við Bretland um áramótin, þegar aðlögunartíma lýkur vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og þar með Evrópska efnahagssvæðinu. Tollar munu væntanlega vera óbreyttir en ferskar dýraafurðir verða til að mynda ekki lengur í frjálsu flæði, frá þessu greinir Félag atvinnurekenda.

Fram kemur að Bretland verður skilgreint sem þriðja ríki gagnvart ESB/EES frá og með 1. janúar 2021, ef ekki nást sérstakir samningar um annað. Því verða ferskar dýraafurðir, svo sem búfjár- og sjávarafurðir, ekki lengur í frjálsu flæði milli Bretlands og EES, og þar með Íslands. Vörur frá Bretlandi munu sæta landamæraeftirliti, þurfa hafa heilbrigðisvottorð og vera frá viðurkenndum afurðastöðvum. 

„Fyrir íslenska útflytjendur dýraafurða til Bretlands verður hins vegar ákveðin aðlögun; um áramót gildir að innflutningur dýraafurða til Bretlands verður tilkynningaskyldur. Frá og með 1. apríl þurfa vörurnar heilbrigðisvottorð og frá og með 1. júlí tekur fullt landamæraeftirlit gildi,“ segir á vef FA.

Breskir birgjar sem flytja matvörur í neytendaumbúðum til EES-ríkja þurfa að breyta merkingum á umbúðunum ef þær skyldi ekki nú þegar uppfylla EES-reglur. Breyttar merkinga eiga einnig við um snyrtivörur og ýmsar efnavörur.

Tekið er fram að „engar líkur“ séu á því að tollar hækki eða nýir tollmúrar rísi um áramót eða síðar. Þvert á móti er til umræðu frekari fríverslun með fisk og stækkun á tollkvótunum fyrir búvörur.

„Ekki stefnir í að framtíðarfríverslunarsamningur við Bretland, sem kæmi í stað EES-samningsins, verði fullgiltur fyrir áramót. Í síðasta mánuði var því gengið frá samkomulagi við Bretland um að bráðabirgðafríverslunarsamningur sem var gerður í fyrra og átti að vera nokkurs konar varaáætlun ef Bretland færi úr ESB án samnings, taki gildi um áramót. Í þessum samningi eru tollar þeir sömu í viðskiptum ríkjanna og þeir hafa verið samkvæmt EES-samningnum og tvíhliða tollasamningi Íslands og ESB um búvöruviðskipti.“