Verktakafyrirtækið VHE skilaði 228 milljóna króna rekstrarhagnaði (EBIT) árið 2021 eftir rekstrartap upp á 1.424 milljónir árið 2020 og 175 milljónir árið 2019. Félagið hagnaðist um 161 milljón eftir skatta á síðasta ári.

VHE lenti í erfiðri fjárhagsstöðu árið 2019 í kjölfar þess að í ljós kom að Upphaf fasteignafélag, dótturfélag sjóðsins GAMMA: Novus, sem var stór samstarfsaðili VHE, væri mun verr fjárhagslega á sig komið en áður var talið. Ástæða þess var ekki síst að verkefni sem VHE vann að fyrir Upphaf, þar á meðal í Kársnesi í Kópavogi, voru komin talsvert styttra á veg en áður hafði verið talið.

Gáfu eftir 2,9 milljarða

Vorið 2020 fór fram endurmat á eignum móðurfélagsins en sú vinna leiddi í ljós að eigið fé var neikvætt og félagið stefndi í þrot. Í kjölfar greiðslustöðvunar náðust nauðasamningar með helmings eftirgjöf skulda. VHE sagði á sínum tíma að ef samningurinn hefði ekki verið samþykktur hefði rekstrarhæfi félagsins lokið. Kröfuhafar gáfu eftir 2,9 milljarða króna en þar af gaf Landsbankinn eftir rúma 2,2 milljarða.

Stjórn félagsins segir að vel hafi gengið að standa við allar greiðslur vegna nauðasamninganna. Gengið hafi betur en gert var ráð fyrir að greiða skuldir til forgangskröfuhafa, þ.e. lífeyrissjóða, og tókst að klára greiðslur til þeirra í byrjun þessa árs.

Skortur á iðnaðarmönnum

VHE, sem er alhliða þjónustuaðili fyrir stóriðjuna ásamt því að sinna byggingaverkefnum, velti 4,5 milljörðum á síðasta ári en 4,1 milljarði árið 2020. Til samanburðar var árlega velta á bilinu 8-10 milljarðar árin 2014-2019. Stjórn VHE segir að verkefnastaða félagsins hafi verið góð á árinu 2021 og hafi batnað enn frekar á þessu ári.

Helsta áskorun VHE, sem er með yfir 200 starfsmenn, hefur verið skortur á hæfum iðnaðarmönnum. Sífellt erfiðara reynist að finna þá hérlendis og því hefur fyrirtækið verið í samskiptum við starfsmannaleigur til að fá aðstoð við að finna hæfa iðnaðarmenn erlendis.

„Við finnum verulega fyrir þessu. Við hefðum getað verið búnir að efla okkur enn frekar ef við hefðum getað náð í fleira hæft og gott iðnaðarfólk. Okkur hefur þó tekist að fá góðan mannskap inn en það tekur lengri tíma en maður hefði viljað,“ segir Gunnar Ármannsson, lögmaður og stjórnarmaður VHE, í samtali við Viðskiptablaðið.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.