Samstæða Sýnar tapaði 405 milljónum króna á síðasta ári. Er það talsvert betri afkoma heldur en árið á undan þegar samstæðan tapaði 1.748 milljónum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem nýverið var sendur Kauphöllinni. Í ársuppgjörinu kemur fram að tekjur af reiki og auglýsingatekjur hafi minnkað til muna sökum heimsfaraldursins.

Tekjur ársins námu tæplega 20,8 milljörðum króna og jukust um tæpan milljarð milli ára. EBITDA ársins nam rúmlega 5,7 milljörðum króna, hækkaði um 230 milljónir króna milli ára, og EBITDA hlutfall var 27,6%. Tap fjórða ársfjórðungs var 3 milljónir króna samanborið við 2,1 milljarða tap á sama tímabili 2019. Þess ber að geta að virðisrýrnun að fjárhæð 2,4 milljarðar króna var færð á fjórðunginn 2019.

„Heimsfaraldurinn hafði töluverð áhrif á reksturinn á árinu. Ef við leiðréttum fyrir því er ljóst að árangur af nýrri stefnu hefði skilað okkur hagnaði á árinu 2020. Við höfum unnið hart að því að framfylgja þeirri stefnu sem við settum okkur á árinu 2019, að rækta langtíma viðskiptasamband við okkar viðskiptavini sem byggir á virðingu og trausti,“ er haft eftir Heiðari Guðjónssyni, forstjóra félagsins, í tilkynningu.

Í ársreikningnum er tekið fram að mat félagsins að framlegð hafi dregist saman um 550 milljónir króna vegna samdráttar í tekjum af auglýsingum og reiki í farsíma. Því til viðbótar séu sýningarréttir flestir í erlendri mynt og því hafi veiking krónunnar haft talsverð áhrif til hækkunar á rekstrarkostnaði. Framundan sé síðan innleiðing 5G.

„Við höfum unnið með Controlant í yfir áratug. Við bjuggum til fyrstu sérhæfðu kortin sem fyrirtækið gat notað í mæla sína. Með samningi Controlant við lyfjageirann hefur vöxtur okkar í IoT verið ævintýralegur. Við höfum gert Ísland að eina landi heims sem hefur fleiri útistandandi símkort fyrir tæki en fyrir fólk. Við þetta bætist að við erum að fara tengja alla nýja snjallmæla Veitna á um 160.000 stöðum. Til viðbótar við þetta hefur samstarf okkar við Vodafone Global gert það að verkum að nánast allir nýir bílar sem koma til landsins frá og með þessu ári munu tengjast við símkerfi okkar, sem aftur léttir á viðhaldi bíla, minnkar kostnað við bilanagreiningu og eykur öryggi allra. Þarna eru við í algerum farabroddi í uppbyggingu fjarskiptakerfis framtíðar,“ segir Heiðar.

Forstjórinn bætir því við að innleiðing 5G hafi gengið hægar en félagið vonaðist til þar sem „skilmálar stjórnvalda varðandi úthlutun varanlegra tíðniheimilda liggja ekki fyrir“.

Eignir félagsins í árslok síðasta árs voru metnar á 30,8 milljarða króna, þar af eru eignir til sölu metnar á hálfan milljarð króna, en það er rúmlega milljarði lægra en árið á undan. Eigið fé er 8,5 milljarðar króna. Skuldir stóðu í 22,3 milljörðum króna og drógust saman um rúmlega 800 milljónir. Handbært fé í árslok var 831 milljónir króna.