Tíu ellefu ehf., rekstrarfélag samnefndra verslana, skilaði 37,8 milljóna króna hagnaði á rekstrarárinu sem lauk í lok febrúar á þessu ári samkvæmt ársreikningi félagsins. Það er nokkur viðsnúningur frá fyrra ári þegar 25,8 milljóna króna tap var af rekstrinum.

Velta keðjunnar, sem er í eigu Árna Péturs Jónssonar, jókst um 9,3% milli ára eða um 379 milljónir og nam um 4,4 milljörðum á síðasta rekstrarári. Eignir félagsins námu í lok febrúar alls um 778 milljónum og eigið fé um 348 milljónum. Samtals voru um 132 heilsársstörf hjá félaginu á síðasta rekstrarári og greiddi félagið um 791 milljón í laun. Það gera að meðaltali um 499 þúsund krónur á hvert starf.