Hagnaður verðbréfafyrirtækisins Auðar Capital nam 162 milljónum króna í fyrra. Þetta mun vera besta afkoman í sögu sjóðsins. Til samanburðar var 65 milljóna króna tap árið 2011 og 76 milljóna króna tap árið 2010.

Í tilkynningu frá Auði Capital kemur fram að rekstrartekjur í fyrra námu 808 milljónum króna og var það 300 milljóna króna aukning frá árinu 2011. Á sama tíma lækkaði rekstrarkostnaður á milli ára og nam hann 654 milljónum króna í fyrra.

Arðsemi eigin fjár var 14,5%. Félagið er skuldlaust og nemur eigið fé þess um 1,2 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall (CAD) er 44,3%. Eigið féð er álíka hátt og í lok árs 2011. Eiginfjárhlutfallið nam hins vegar þá 57% og hefur því lækkað á milli ára.

Stofna Eddu

Þá kemur fram í tilkynningu Auðar Capital að verðbréfafyrirtækið hafi lokið fjármögnun á nýjum 5 milljarða króna framtakssjóði, Eddu slhf. Um 30 stofnana- og fagfjárfestar leggja sjóðnum til fé, m.a. flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins. Edda er langtímafjárfestir sem mun fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum á Íslandi. Auður Capital hefur rekið framtakssjóðinn Auði 1 í fimm ár, en hann hefur á þeim tíma fjárfest fyrir tæplega þrjá milljarða króna í níu íslenskum fyrirtækjum með góðum árangri.