*

föstudagur, 18. september 2020
Innlent 29. júní 2020 10:11

Viðsnúningur hjá Auðkenni

Félagið á bakvið rafrænu skilríkin sem er í eigu stóru viðskiptabankanna fór úr 22 milljóna tapi í 25 milljóna hagnað.

Ritstjórn
Sigrún Ragna Ólafsdóttir er stjórnarformaður Auðkennis.
Haraldur Guðjónsson

Auðkenni, félagið á bakvið rafræn skilríki, hagnaðist um 25 milljónir króna á síðasta ári, en árið áður var félagið rekið með 22 milljóna króna tapi.

Tekjur félagsins námu 344 milljónum króna og jukust um 56 milljónir frá fyrra ári, eða 19,5%, en rekstrargjöldin jukust um 3,4% milli ára, úr 314,9 milljónum í 325,5 milljónir. Þar af lækkuðu laun og launatengd gjöld um 16,7%, úr 159,6 milljónum í 132,1 milljón króna og fór EBIT úr því að vera neikvæð um tæplega 26,7 milljónir í að vera jákvæð um 18,9 milljónir.

Eignir félagsins námu 257 milljónum á síðasta degi ársins 2019, og höfðu þær aukist um 12,3% á árinu úr 228,5 milljónir. Eigið fé félagsins nam á sama tíma 195 milljónum króna, sem er aukning um 14,5% frá 170 milljónum í ársbyrjun en skuldirnar jukust um 5,9%, úr 58,5 milljónum í 62 milljónir. Þar með hækkaði eiginfjárhlutfallið úr 74,4% í 75,8%.

Stóru viðskiptabankarnir þrír eru stærstu hluthafar félagsins, en hver um sig á um fjórðungshlut. Sigrún Ragna Ólafsdóttir er stjórnarformaður félagsins.