Miklar sviptingar urðu hjá lögmannsstofunni BBA Legal í fyrra, rétt eins og árið áður. Ólíkt árinu áður var þróunin hins vegar jákvæð. Milli áranna 2015 og 2016 féllu tekjur BBA um tæpan helming, úr 725 milljónum í 400, á meðan rekstrarkostnaður dróst aðeins saman um 10%. Hagnaður stofunnar dróst saman um 90%, úr 263 milljónum í 27.

Í fyrra var hins vegar viðsnúningur: tekjurnar jukust um 10% og gjöld drógust lítillega saman, þannig að hagnaðurinn tæplega þrefaldaðist, í 77 milljónir. Það er þó aðeins 29% af tekjunum 2015, en Baldvin Björn Haraldsson meðeigandi segir góðan uppgang í verkefnum hjá stofunni og horfir björtum augum fram á við. „Já, ég sé það fyrir mér að hagnaðurinn verði meiri en í fyrra. Þetta er bara búið að vera ansi heilbrigður rekstur hjá okkur undanfarin ár og við horfum mikið í tölur hjá okkur og pössum upp á útgjöld og lítum mjög mikið til allra talna í rekstrinum; okkur hefur gengið bara mjög vel.“

Baldvin segir ástæðuna fyrir því að endalok hrunverkefnanna höfðu svo mikil áhrif á BBA samanborið við hinar stofurnar vera þá að hún sé mun sérhæfðari stofa. „Við erum minna svona alhliða fyrirtæki en þessar stofur. Þær eru með mun breiðari starfsgrundvöll en við. Þær eru með innheimtumál, mikið með málflutning, við erum miklu háðari því að það sé blómlegt viðskiptalíf.“

Hann segir viðskiptalífið einfaldlega hafa verið rosalega þreytt eftir þau átök sem uppgjör hrunmálanna fól í sér. „Það má segja að menn hafi hreinlega verið að jafna sig aðeins eftir þennan slag sem þetta var. Fyrirtæki voru með erlend lán, það var alls konar slagur sem þurfti að taka til að menn færu bara margir hverjir ekki á hausinn. Þannig að það tók bara ansi langan tíma og þegar menn eru búnir að slást svona lengi þá kemur ákveðin þreyta yfir þá, og þegar þessu svona er að mestu leyti lokið þá tekur tíma að snúa sér að jákvæðari verkefnum, og ég held að sá tímapunktur hafi verið svona í kringum 2016.“

Logos heldur ákveðnum grunni
Rekstur Logos dróst hóflega saman í fyrra, með 10% samdrætti tekna niður í rétt rúma 2 milljarða. Rekstrargjöld lækkuðu um 6%, og í stað gengistaps upp á tæpar 50 milljónir árið 2016 varð gengishagnaður upp á 3,6 milljónir í fyrra. Þrátt fyrir það dróst hagnaður saman um 14% milli ára og var 493 milljónir í fyrra.

Helga Melkorka Óttarsdóttir, framkvæmdastjóri Logos, segir hafa munað um það þegar erlendu hrunverkefnin fóru, en stofan hafi einnig verið með sterkan kúnnahóp innanlands og hafi þannig tekist að halda ákveðinni kjölfestu. „Þau mál sem tengjast hruninu eru allt að því búin núna, en þó að þessi uppgjörsverkefni hafi verið þá vorum við að vinna fullt af hefðbundnum lögfræðistörfum fyrir innlend fyrirtæki sem svo hafa haldið áfram, svo við höfum haldið ákveðnum grunni gangandi.

Það voru þarna nokkur ansi góð rekstrarár, en ég hugsa að við séum svona nær því sem við munum sjá til lengri tíma litið. Auðvitað vill maður ekkert sjá það í hinum fullkomna heimi að það sé allt að fara niður á milli ára, en það var alltaf vitað að við færum ekkert að vera alveg svona hátt uppi mörg ár í röð, það er komið meira jafnvægi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .