Emmessís hagnaðist um 132,1 milljón króna á síðasta rekstrarári en árið áður nam tap félagsins 17,5 milljónum. Sala var um 954 milljónir króna og jókst um 9% milli ára en EBIT framlegð félagsins ríflega tvöfaldaðist, úr 30 milljónum króna í 65,5 milljónir.

Launakostnaður félagsins var rúmar 300 milljónir króna og jókst um tæp 12%, en meðalfjöldi starfsmanna yfir árið var 32 og jókst um tvö ársverk frá fyrra ári.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 5,6%. Eigið fé félagsins nam 32,1 milljón króna í árslok en árið áður var það neikvætt um 100 milljónir. Hlutafé var fært niður um hálfa milljón króna til jöfnunar á eigin bréfum og nam 24,5 milljónum í árslok.

Eignir félagsins námu tæpum 570 milljónum í árslok sem er aukning um tæp 20% frá fyrra ári. Skuldir félagsins lækkuðu lítillega, um 6,5%, og námu 538 milljónum. Í tengslum við eigendaskipti á félaginu var fjármögnun félagsins endurskipulögð á árinu, sem fól meðal annars í sér að skuldir voru niðurfærðar um 102 milljónir króna, sem fært var til tekna í rekstrarreikningi félagsins. Á árinu veittu hluthafar félaginu víkjandi lán að fjárhæð 140 milljóna króna.

Hluthafar Emmessíss voru tveir í árslok. Félagið er í meirihlutaeigu 1912 ehf. en félagið keypti á síðasta ári 56% hlut af Ísgörðum ehf. og allan hlut Gyðu Dan Johansen, sem var 9%. Ísgarður hélt eftir 35% hlut en félagið er í eigu Pálma Jónssonar sem jafnframt er framkvæmdastjóri ísgerðarinnar.

1912 ehf. er móðurfélag Nathan & Olsen og Ekrunnar. Félagið er í eigu Kristínar Fenger Vermundsdóttur og barna hennar Ara og Bjargar Fenger en systkinin sitja í stjórn Emmessíss.