Novator ehf., félag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hagnaðist um 114 milljónir króna á síðasta ári. Er það töluverður viðsnúningur frá fyrra ári þegar fyrirtækið tapaði 121 milljón króna. Þetta má sjá í nýbirtum ársreikningi Novator.

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu 6,4 milljörðum króna á árinu og jukust um milljarð króna á milli ára. Rekstrargjöld námu 5,6 milljörðum króna og voru um hálfum milljarði hærri en ári fyrr. Rekstrarhagnaður félagsins án fjármunatekna og fjármagnsgjalda nam tæplega 750 milljónum króna.

Eignir Novator námu rúmlega 6,1 milljarði króna í lok ársins, en þar af námu rekstrarfjármunir 2,6 milljörðum og fjárfesting í öðrum félögum nam 1,2 milljörðum króna. Handbært fé var 617 milljónir króna. Skuldir fyrirtækisins námu aftur á móti 6,3 milljörðum króna.

Novator er í fullri eigu Novator Holding, sem skráð er í Lúxemborg. Innlend dótturfélög Novators eru Nova ehf. og Novator F11 ehf.