Hagnaður Flugleiðahótela nam í fyrra 116 milljónum króna, en árið 2013 var 24,7 milljóna króna tap á rekstri félagsins. Velta jókst nokkuð á milli ára og nam rétt tæpum sjö milljörðum króna, samanborið við 6,2 milljarða veltu árið 2013. EBITDA hagnaður jókst um 200 milljónir á milli ára, nam 296 milljónum árið 2013, en var 499 milljónir í fyrra. Félagið er í eigu Icelandair Group.

Hagnaður fyrir skatta var í fyrra 135,9 milljónir, en árið 2013 var 35,3 milljóna króna tap fyrir skatta.

Eignir námu um síðustu áramót 2,8 milljörðum, en voru tæpir 2,3 milljarðar ári fyrr. Eigið fé nam í árslok 2014 1,1 milljarði króna, en var 187 milljónir ári fyrr. Nýtt hlutafé að fjárhæð 820 milljónir króna var lagt inn í félagið á árinu auk þess sem uppsafnað tap lækkaði. Skuldir félagsins lækkuðu um rúmar þrjúhundruð milljónir og námu um áramótin 1,7 milljörðum króna.