Nafnávöxtun samtryggingadeilda lífeyrissjóðsins Gildis nam 6,9% ár ársgrundvelli fyrstu tíu mánuði ársins sem samsvarar um 5,1% hreinni raunávöxtun. Til samanburðar var raunávöxtun samtryggingadeilda í fyrra neikvæð um 0,9%. Þróun á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum ásamt gengi krónunnar ráða mestu um niðurstöðu ársins.

Þá er einnig betri afkoma í ávöxtun séreignarsparnaðar í ár heldur en í fyrra. Gildi býður upp á þrjár fjárfestingarleiðir sem nefnast framtíðarsýn 1, 2 og 3. Hrein raunávöxtun á framtíðarsýn 1 var 5,8 fyrstu tíu mánuði ársins samanborið við 0,2% í fyrra. Hrein raunávöxtun á framtíðarsýn 2 var 5,6% samanborið við 1,3% í fyrra. Hrein raunávöxtun á framtíðarsýn 3 var 1,9% samanborið við 1,8% í fyrra.

Þá námu iðgjöld 18,4 milljörðum fyrstu tíu mánuði ársins en útgreiddur lífeyrir nam 12,5 milljörðum króna sem þýðir nettó jákvætt innflæði upp á 5,9 milljarða króna. Þá halda sjóðfélagalán áfram að aukast hjá sjóðnum en 700 ný lán hafa verið veitt í ár.