Rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarsjóðs Grindavíkur var nam 230,4 milljónum króna í fyrra, en árið 2011 var 100,6 milljóna króna halli á A- og B-hluta sveitarsjóðsins. Afgangur af A-hluta nam 180,3 milljónum, en árið 2011 var 149,5 milljóna króna halli á A-hluta sjóðsins.

Hvað A- og B-hlutann varðar hækkaði rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði úr 98,2 milljónum króna árið 2011 í 264,5 milljónir í fyrra. Þá voru fjármagnsliðir neikvæðir um 34,1 milljón í fyrra, en voru neikvæðir um einar 198,9 milljónir ári fyrr.

Eignir A- og B-hluta samanlagt hækkuðu úr 7,28 milljörðum króna í 7,65 milljarða og er langstærstur hluti eignanna í fasteignum og lóðum, en sá hluti nemur tæpum 5,2 milljörðum króna. Eigið fé hækkaði úr 5,82 milljörðum í 6,20 milljarða, en skuldir og skuldbindingar lækkuðu úr 1,46 milljörðum í 1,44 milljarða. Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nam 480,3 milljónum króna og handbært fé frá rekstri nam 541,7 milljónum.