HS Orka hagnaðist um 679 milljónir króna á síðasta ári, en þetta kemur fram í ársreikningi félagsins . Er þetta verulegur viðsnúningur frá árinu 2013 þegar félagið tapaði 434 milljónum króna.

Rekstrartekjur félagsins hækkuðu um 6% á árinu og námu 7.479 milljónum á tímabilinu samanborið við 7.031 milljón króna árið 2013. EBITDA er alls 2.738 milljónir króna en var 2.603 milljónir króna ári fyrr.

Þá er lækkun á virði afleiða (framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengjast álverði) 1.556 milljónum króna, en var 4.138 milljónir á árinu 2013.

„Rekstur fyrirtækisins gengur vel og hækkaði EBITDA samanborið við 2013 um 5% eða sem nam 135 m.kr. Tekjur jukust á milli ára eða um 447 m.kr. Þá hækkaði rekstrarkostnaður um 6% eða sem nemur 359 m.kr. milli sömu tímabila,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Aukinn kostnaður vegna málareksturs

Segir einnig að tekjur hafi aukist talsvert á smásölumarkaði og á kostnaðarhliðinni hafi rekstrarkostnaður orkuvera lækkað töluvert, orkukaup hafi aukist en flutningskostnaður lækki.

„Þá hefur skrifstofu og stjórnunarkostnaður hækkað, fyrst og fremst vegna kostnaðar við rekstur dómsmála og undirbúnings gerðardómsmáls vegna orkusölusamnings við Norðurál í Helguvík sem reiknað er með að fari fram á vormánuðum 2016,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Eiginfjárhlutfall félagsins í árslok nam 59,7% en var í árslok 2013 58%.