Íslenskir aðalverktakar skiluðu 246,7 milljóna króna hagnaði í fyrra, samanborið við 992,1 milljóna króna tap árið 2014. Viðsnúningurinn skýrist af því að árið 2014 var kostnaður vegna verkframkvæmda hærri en tekjur af framkvæmdunum, en í fyrra snerist þetta við og 631,6 milljóna króna EBITDA-tap árið 2014 breyttist í 399,1 milljóna króna EBITDA-hagnað.

Tekjur verkframkvæmda jukust lítillega milli ára, voru 9,4 milljarðar árið 2014, en voru tæpir 9,6 milljarðar í fyrra. Laun og launatengd gjöld lækkuðu verulega milli ára. Voru 2.882,5 milljónir árið 2014, en voru 2.161,1 milljón í fyrra, enda voru stöðugildi að meðaltali 345 árið 2014, en voru 229 í fyrra.

Eignir námu í árslok 3,2 milljörðum króna og lækkuðu um rúman 1,1 milljarð króna milil ára. Skuldir lækkuðu enn meira, voru 3,7 milljarðar í árslok 2014, en voru 2,3 milljarðar árið síðar. Þar af eru langtímaskuldir um 350 milljónir króna.

Eigið fé í lok ársins nam 881 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 27,33%.