Rekstur MP banka hefur vænkast talsvert á seinni hluta árs, borið saman við fyrri helming ársins. Félagið skilaði meira en 160 m.kr. hagnaði á þriðja ársfjórðungi og hefur þannig orðið viðsnúningur frá 160 m.kr. tapi miðað við hálfsársuppgjör sem var birt í júní. Ekki fást uppgefnar nákvæmar tölur úr árshlutauppgjörinu, en miðað við upplýsingar frá bankanum hefur hann eftir þriðja ársfjórðung skilað hagnaði það sem af er ári.

Mestu máli skiptir samdráttur í rekstrarkostnaði um 30% miðað við fyrra ár, samkvæmt Sigurði Atla Jónssyni, forstjóra MP banka. Meðal aðgerða var fækkun starfsfólks um 30%. „Reksturinn hefur vænkast í framhaldi af þeirri endurskipulagningu sem fór af stað seint á síðasta ári þegar það var í rauninni verið að endurskipuleggja bankann í annað sinn. Í fyrsta skiptið með það fyrir augum að vaxa og í annað skiptið vegna breyttra forsendna til að lækka rekstrarkostnað og skerpa á áherslum. Það hefur bara gengið mjög vel,“ segir hann. Áhrif hagræðingaraðgerða séu nú að fullu komin fram.