Nexus afþreying ehf., sem nýlega flutti verslun sína, Nexus, úr Nóatúni í Glæsibæ, hagnaðist um tæplega 1,5 milljónir króna á síðasta ári.

Er það viðsnúningur frá tæplega milljónar króna tapi árið 2016. Jókst vörusala félagsins um 18,9% á milli ára, úr 320,6 milljónum í 381,2 milljónir. Á sama tíma jukust rekstrargjöldin um 18,1%, úr 319,7 milljónum í 377,7 milljónir.

Eignir félagsins jukust jafnframt, eða úr 73 milljónum í 80,2 en handbært fé fór úr 4,5 milljónum í ársbyrjun í 128 þúsund í lok ársins 2017.

Hjá félaginu störfuðu á síðasta ári 40 starfsmenn að meðaltali og námu heildarlaunagreiðslurnar 71,8 milljónum króna.

Eigandi og framkvæmdastjóri félagsins er Gísli Einarsson, en verslunin selur teiknimyndabækur og -blöð ýmiss konar, spil, leikföng og alls kyns afþreyingarefni auk spilasalar fyrir áhugafólk.