Japanski tölvuleikjarisinn Nintendo skilaði 67 milljóna dala hagnaði á öðrum ársfjórðungi og jókst sala fyrirtækisins um 20% á tímabilinu miðað við sama tímabil í fyrra. BBC News greinir frá uppgjöri fyrirtækisins.

Þetta er töluvert betri afkoma en á síðasta ári þegar Nintendo skilaði um 80 milljóna dala tapi. Ný leikjaútgáfa hjálpaði fyrirtækinu talsvert, t.d. leikurinn Splatoon sem seldist í 1,6 milljónum eintaka. Þá kom veikt jen sér vel fyrir félagið þar sem afkoma þess byggist að mestu leyti á útflutningi.

Sérfræðingar bjuggust við því að Nintendo myndi skila tapi á fjórðungnum og kom uppgjörið því nokkuð á óvart. Fyrirtækið stefnir að því að skila 283 milljóna dala hagnaði á fjárhagsárinu sem lýkur í mars á næsta ári og ætlar að halda sig við þá áætlun.