Eftir að hafa selt farsímasvið sitt til Microsoft hefur töluverð óvissa ríkt um næstu skref hjá finnska fyrirtækinu Nokia. Nýlega tilkynnti Microsoft að Nokia nafnið yrði fjarlægt af farsímum fyrirtækisins en forsvarsmenn Nokia hafa nú fundið nýja leið til að efla fyrirtækið.

Fjarskiptadeild Nokia hefur á síðustu misserum reynst fyrirtækinu vel en í síðustu viku tilkynnti fyrirtækið söluaukningu á milli ára í fyrsta skipti í þrjú ár. Kemur það í kjölfar umfangsmikilla fjarskiptasamninga í Norður Ameríku, Evrópu og Asíu.

Í umfjöllun Financial Times um málið kemur fram að þótt markaðsvirði fyrirtækisins upp á 25 milljarða evra sé aðeins einn tólfti af virði fyrirtækisins þegar það gnæfði yfir farsímamarkaðinn undir lok tíunda áratugarins, sé það mun betur statt en árið 2011 þegar markaðsvirði þess nam fimm milljörðum evra. Verð á hlutabréfum í Nokia hefur hækkað um þriðjung eftir að það ákvað að selja farsímadeild sína.