Hagnaður af rekstri Norvik árið 2013 nam 184 milljónum króna en það er töluverður viðsnúningur frá rúmlega 552 milljóna króna tapi árinu áður. Heildartekjur samstæðunnar jukust um 7% milli ára og námu alls rúmum 66 milljörðum króna.

Það sem einna helst skýrir tap ársins 2012 voru afskriftir og virðisrýrnun sem voru helmingi meiri það ár en árið á eftir. Búast má við enn betri niðurstöðu í ársreikningi nýliðins árs þar sem þá var gerður samningur um sölu dótturfélaganna Kaupás, ELKO, Bakkans vöruhótels, ISP á Íslandi og EXPO. Heildarvelta seldu félaganna á árinu 2013 var 33 milljarðar króna, EBITDA þeirra 1,2 milljarðar og heildareignir 6,7 milljarðar.

Norvik er íslenskt eignarhaldsfélag sem rekur framleiðslu og heildsölu í timbri auk smásölufyrirtækja. Framkvæmdastjóri þess er Brynja Halldórsdóttir.