Seðla­bankinn hefur hafið gjald­eyris­kaup á nýjan leik eftir um­svifa­mikla gjald­eyris­sölu í far­aldrinum og er búist við að bankinn kaupi drjúg. Þetta kemur fram í greiningu Ís­lands­banka.

Gjald­eyris­kaup Seðla­bankans námu að minnsta kosti 115 milljónum evra, tæp­lega 17 milljarðar króna, í júní en í greininguna vantar gögn fyrir síðasta dag mánaðarins. Þar af átti stærsti hluti kaupanna sér stað á tíma­bilinu 16. til 22. júní.

„Lík­legt má telja að þau tengist inn­flæði er­lendra fjár­festa vegna kaupa á inn­lendum verð­bréfum og hefur Seðla­bankinn með þessum hætti væntan­lega viljað af­stýra því að styrkingar­spírall myndaðist á gjald­eyris­markaði," segir í greiningunni.

Þetta er einungis í annað sinn frá miðju síðasta ári sem að Seðla­bankinn var kaupandi á gjald­eyris­markaði en í maí keypti bankinn 15 milljónir evra.

Bankinn seldi hins vegar tæpan milljarð evra af gjald­eyri í milli­tíðinni en þrátt fyrir það er forðinn myndar­legur . Sú sala fór fram með reglu­legri gjald­eyris­sölu og inn­gripi „þar sem bankinn brást við tíma­bundnu flæði á markaði í því skyni að dýpka hann tíma­bundið og draga úr skamm­tíma sveiflum í gengi krónu."

Seðla­bankinn stundaði oft á tíðum umfangsmikil gjaldeyrisviðskipti i og námu við­skipti bankans um 54% af heildar­við­skiptum á síðasta árs­fjórðungi ársins 2020. Síðan þá hefur jafn og þétt dregist úr hlut­deild bankans af heildarviðskiptum þangað til í júní, en þá voru þau tæp­lega 44% heildar­við­skiptum.