Þrjú stærstu sveitarfélög landsins hafa birt árshlutauppgjör fyrir samstæðu sveitarfélaganna (A- og B-hluta). Að mati greiningardeildar Arion banka, þá er „ekki annað hægt að segja en að viðsnúningur hafi orðið á rekstrinum á fyrstu sex mánuðum ársins.“

Þar er einnig tekið fram að öll sveitarfélögin þrjú skiluðu betri afkomu en ráð var gert fyrir og að EBITDA framlegð þeirra hafi hækkað hjá öllum þremur yfir 15%.

Greiningardeild Arion banka tekur þá sérstaklega fram að: „Í árshlutauppgjöri Reykjavíkurborgar 2015 mældist framlegðin 21% en í ársreikningi 2015 var ákveðið að gjaldfæra breytingar á lífeyrisskuldbindingu sem leiddi til töluvert verri rekstrarafkomu en árshlutauppgjörið hafði gefið til kynna. Hjá Kópavogsbæ liggur fyrir sambærileg breyting sem mun væntanlega hafa áhrif á á lífeyrisskuldbindingar LSK (Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogsbæjar) og þar með afkomu sveitarfélagsins.“

Tekjuvöxtur jákvæður

Tekjuvöxtur hjá sveitarfélögunum var þá sérstaklega jákvæður og er hann í öllum tilfellum hærri en vöxtur gjalda. Þetta er mikill viðsnúningur frá fyrri ársreikningum. Vöxtur launa og launatengdra gjalda er lægri en á fyrri helmingi árs 2015 á sama tíma og skuldir hafa haldið áfram að lækka.

Að lokum kemur fram að: „Á heildina litið sýna árshlutauppgjör Hafnarfjarðar, Kópavogs og Reykjavíkur afkomubata á milli ára. Tekjur aukast umfram gjöld á sama tíma og skuldir halda áfram að lækka og veltufjárhlutföll hækka. Fjárfesting á landsvísu er þó enn nokkuð lág og á nokkuð í land til að komast upp í langtímameðaltal.“