Hagur stærstu sveitarfélaga landsins vænkaðist allverulega á síðasta ári. Þó sveitarfélögin séu mismunandi að íbúafjölda og flatarmáli er ljóst af uppgjörum síðasta árs að viðsnúningur varð í rekstri og afkomu þeirra. Tekjur uxu hraðar en gjöld, afgangur frá rekstri var meiri en árið áður og rekstrarafkoma í flestum tilfellum umfram væntingar – og rúmlega það. Þá hélt skuldastaða sveitarfélaganna áfram að batna. Hjá mörgum þeirra urðu jafnvel tímamót í rekstrarniðurstöðu og skuldamálum á síðasta ári, og hafa mörg þeirra ekki staðið jafn vel að vígi og nú í yfir áratug.

En ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Sveitarfélögin eru enn mörg hver skuldsett og uppsöfnuð fjárfestingarþörf er mikil. Á sama tíma eru útsvarshlutföll í flestum tilfellum í lögbundnu hámarki. Þar að auki er talið að hagsveiflan hafi náð há­marki í fyrra, sem þýðir að svigrúm sveitarfélaganna til að auka tekjur sínar mun minnka á komandi árum. Sveitarfélögin standa því frammi fyrir þeirri áskorun að halda áfram að greiða niður skuldir, hagræða í rekstri og rá­ðast í kostnaðarsamar fjárfestingar á næstu árum.

Skin, skúrir, og skin aftur

Viðskiptablaðið tók úrtak 22 sveitarfélaga til skoðunar í úttekt á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga landsins. Úrtakið miðar við sveitarfélög sem töldu 1.500 íbúa eða fleiri í upphafi árs 2016. Íbúafjöldi úrtaksins er tæplega 295.000 eða um 88,5% landsmanna. Tíu stærstu sveitarfélög landsins eru í úrtakinu, en íbúafjöldi þeirra er tæplega 80% landsmanna. Mið­að er við samstæðuuppgjör hvers sveitarfélags, þ.e. sveitarsjóð (A-hluta) ásamt fyrirtækjum, stofnunum og öðrum rekstrarreikningum sveitarfélagsins (B-hluta). Sveitarfélögin hafa mörg hver birt ársreikninga fyrir árið 2016, sem og upplýsingar úr fyrri umræðum bæjarstjórna um ársreikninga síðasta árs, en fimm sveitarfélög (Seltjarnarnes, Skagafjörður, Norð­urþing, Hornafjörður og Sandgerði) sem telja yfir 1.500 íbúa höfðu ekki gert upplýsingar úr uppgjörum síðasta árs opinberlegar áður en úttektin birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn fimmtudag.

Eftir hrun viðskiptabankanna og krónunnar árið 2008 lentu mörg sveitarfélög í taprekstri ásamt því að sjá skuldir sínar margfaldast. Til að ná endum saman og standa undir erfiðri skuldastöðu gripu mörg sveitarfélög og fyrirtæki þeirra til ýmissa hagræðingar- og aðhaldsaðgerða. Rekstur sveitarfélaganna batnaði í kjölfarið, með árlegri aukningu í EBITDA-framlegð (rekstrarhagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði sem hlutfall af rekstrartekjum) á tímabilinu 2010 til 2013, en það er kennitala sem sýnir hversu hátt hlutfall rekstrartekna sveitarfélagið skilar til að standa undir fjármagnskostnaði og fjárfestingum og er mælikvarði á hagkvæmni í rekstri. Sú þróun snerist þó til verri vegar á árunum 2014 til 2015, þegar rekstrargjöld sveitarfélaganna uxu hraðar en rekstrartekjur. Sérstaklega settu nýir kjarasamningar árið 2015 þrýsting á kostnaðarhlið sveitarfélaganna, sem dró úr framlegð.

Á nýliðnu ári varð hins vegar viðsnúningur í rekstri sveitarfélaganna á nýjan leik og uxu tekjur meira en gjöld. Vöxtur rekstrartekna, að teknu tilliti til 0,1% breytingar í verðbólgu milli ára og stærð­ar sveitarfélaganna í úrtakinu skv. íbúafjölda, nam að meðaltali 10,3% milli 2015 og 2016 en vöxtur útgjalda var 3,3%. Mestur var vöxturinn í útsvarstekjum á tekjuhlið úrtaksins. Þá hækkaði EBITDAframlegð einnig milli ára, úr 13,2% að vegnu meðalta (þ.e. að teknu tilliti til stærðar sveitarfélaganna) í 18,5%. Framlegð batnaði hjá 14 af 22 sveitarfélögum milli ára.

Margfalt betri afkoma

Af 22 sveitarfélögum var rekstrarafkoma í öllum tilfellum umfram afkomuáætlanir samkvæmt fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna, að Árborg undanskilinni. Að jafnaði var afkoma sveitarfélaganna 128% umfram áætlun. Afkoma 19 sveitarfélaga batnaði milli ára. Sex sveitarfélög (Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær, Árborg, Dalvík og Rangárþing eystra) fóru úr hallarekstri í rekstrarafgang, en aðeins Akureyrarbær skilaði tapi á rekstrarárinu. Að vegnu meðaltali skiluðu sveitarfélögin yfir 11 milljarða króna hagnaði í fyrra, borið saman við um 2 milljarða króna tap árið 2015. Afkoman batnaði því 6,5-falt milli ára.

Rekstur Kópavogsbæjar skilaði afgangi upp á um 1,2 milljarða, sem er ríflega fjórfalt meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Akureyrarbær var rekinn með 80 milljóna króna halla, en áætlanir gerðu ráð fyrir 687 milljóna halla.

Vert er þó að staldra við og halda því til haga að það er ekki markmið sveitarfélaga að há­ marka hagnað. Sveitarfélögin þurfa þó að skila nægum hagnaði af reglubundnum rekstri til að mæta fjármagnskostnaði og fjárfestingum, lækka útsvar og sinna ýmsum velferðarmálum. Bætt afkoma er því jákvæð í ljósi skuldastöðu sveitarfélaganna og uppsafnaðrar fjárfestingarþarfar þeirra.

Hagsveiflan hafði áhrif

Ýmsar ástæður kunna að vera fyrir því að fjárhagsstaða sveitarfélaganna hafi batnað verulega í fyrra.

Tekjustofnar sveitarfélaga eru þrír: skattar (útsvar og fasteignaskattur), framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og aðrar tekjur á borð við þjónustutekjur og lóðarleigu. Útsvarstekjur eru yfir helmingur af heildartekjum sveitarfélaga. Útsvar er dregið af launum launþega ásamt tekjuskatti ríkissjóðs. Launavísitalan hækkaði um 11,4% á síðasta ári, sem skilaði meiri útsvarstekjum þrátt fyrir að 22 af 28 stærstu sveitarfélögum landsins væru með útsvarshlutfall í lögbundnu hámarki (14,52%). Hagsveiflan átti þannig stóran þátt í afkomu sveitarfélaganna á síðasta ári, en samkvæmt Árbók sveitarfélaga 2016 fylgja tekjur sveitarfélaga hagsveiflunni. Einnig hefur aukið kostnaðaraðhald bætt afkomu sveitarfélaganna, en gjöld jukust aðeins um 3,3% á síðasta ári borið saman við yfir 10% árið áður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .