Tískuvöruverslunarkeðja Svövu Þorgerðar Johansen, NTC, hagnaðist um nærri því jafnmikið, eða 23 milljónir á síðasta ári og það tapaði árið áður, en þá var tapið um 26 milljónir króna. Félagið heldur utan um rekstur tískuvörumerkjanna eva, Copmanys, GK Reykjavík, gallerý sautján, gs skór, Karakter konur, Kultur, Kultur menn og Smash Urban.

Tekjur félagsins jukust um rétt 2,1% milli ára, í 2,2 milljarða, meðan rekstrargjöldin drógust saman um 1,1%, í rétt rúmlega 2,1 milljarð króna. Þar af lækkuðu laun og launatengd gjöld um 4%, úr 523 milljónum í 540 milljónir samhliða því að stöðugildum fækkaði úr 163 að jafnaði i 148.

EBITDA félagsins ríflega þrefaldaðist milli ára, úr 26,3 milljónum í tæplega 80 milljónir króna, meðan Rekstrarhagnaðurinn (EBIT) fór úr því að vera neikvæður um 4,4 milljónir króna í að vera jákvæður um 39,6 milljónir króna.

Eiginfjárhlutfallið stóð nánast í stað, í rúmum 25%, meðan heildareignirnar jukust um 13,4%, úr 706 milljónum króna í 801 milljón króna. Eigið fé félagsins jókst um 12,9%, úr 180,5 milljónum í 203,8 milljónir króna á sama tíma og skuldirnar jukust um 13,6%, úr 525,9 milljónum í 597,6 milljónir króna.

Björn K. Sveinbjörnsson er framkvæmdastjóri, og eigandi 4,1% hlutar í félaginu, en Svava Þorgerður Johansen á beint 42,52% í félaginu auk þess sem hún er stjórnarformaður Sautján ehf. sem á 53,38% í félaginu.