Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins í mars síðastliðnum mældist talsverður samdráttur í íbúðum í byggingu, þá einkum á fyrstu byggingarstigum. Enn fremur ef spá SI gengur eftir gæti myndast umfram eftirspurn sem myndi leiða til verðhækkana á sumum íbúðum. Frá Þessu er greint á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess voru um 5.400 íbúðir í byggingu eða um 11% færri íbúðir en vorið 2019 sem er mesti samdráttur sem hefur orðið frá árunum 2011-2012. Þá kemur fram að 42% færri íbúðir eru á fyrstu byggingarstigum á höfuðborgarsvæðinu samanborið við vortalninguna 2019.

Í fyrrnefndri skýrslu frá SI í mars gerðu samtökin ráð fyrir að um 2.100 íbúðir verði fullgerðar á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum þess á árinu 2020. Fyrir ári var spáð að yfir 3.000 nýjar íbúðir yrðu tilbúnar til afhendingar á árinu.

Talningar fyrir Norðurland gefa hins vegar til kynna að umsvif hafi aukist í nýbyggingum þar en fjöldi íbúða á fyrstu byggingarstigum, stigum tvö og þrjú, jókst um 90% á milli ára en árið þar áður hafði mælst 60% samdráttur. Gert er ráð fyrir að fullbúnar íbúðir á svæðinu telji 221 í ár og 244 á næsta ári.

Íbúðafjárfesting dregist saman

Samkvæmt nýjustu spá Seðlabanka Íslands í maí mun draga úr íbúðafjárfestingu um 23% á árinu 2020 frá fyrra ári og mun íbúðarfjárfesting sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækka úr 5,6% í 4,7% á milli ára. Á árunum 2021-2022 gerir spá Seðlabankans ráð fyrir því að íbúðafjárfesting taki aftur við sér og aukist um 9,5% og 8,2% á milli ára.

Undanfarin fimm ár hefur íbúðarfjárfesting aukist ört og náði hámarki árið 2019 þegar hún nam nærri 170 milljörðum á verðlagi ársins 2020 og hefur ekki mælst hærri svo langt aftur sem gögn ná.

Þótt íbúðafjárfesting á verðlagi ársins 2020 hafi verið meiri árið 2019 heldur en árið 2007 þá var hún, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, nokkuð hærri þá en nú. Árið 2007 var íbúðafjárfesting 6,6% af VLF en árið 2019 stóð hlutfallið í 5,6%. Lægst var hlutfallið á árunum 2010 til 2015 þegar það var á bilinu 2,1%-2,9%.

Vert er að taka fram að mikil óvissa ríkir um framvindu efnahagsmála á næstu árum.