Samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu fimm mánuði ársins batnaði handbært fé frá rekstri verulega milli ára. Var það jákvætt um 15,2 milljarða króna í ár, meðan það var neikvætt um 32,4 milljarða á sama tíma árið 2015.

Skýrist þessi viðsnúningur að stærstum hluta með tekjum af stöðugleikaframlagi á árinu 2016 en það var 17 milljarðar króna í janúar og 25 milljarðar í mars. Jukust innheimtar tekjur ársins fyrir tímabilið janúar til og með maímánuði um 19,6% og voru þær 317,8 milljarðar króna.

Þar af nam stöðugleikaframlagið alls 42 milljörðum króna og arðgreiðslur 15,9 milljörðum króna. Ef leiðrétt er fyrir því hvort tveggja milli ára, jukust tekjurnar um rúmlega 10% sem endurspeglar aukin umsvif efnahagslífsins og almennar launahækkanir í landinu.