Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 5,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi en jákvæður um 8,7 milljarða á sama tíma 2019. Á fyrri helmingi ársins var vöru- og þjónustujöfnuður neikvæður um 1,1 milljarð króna en jákvæður um 44 milljarða á sama tíma 2019. Frá þessu er greint á vef Hagstofu Íslands.

Vöruviðskiptajöfnuður er áætlaður neikvæður um 9,2 milljarða króna á fjórðungnum og þjónustujöfnuður jákvæður um 3,7 milljarða. Vöru- og þjónustujöfnuður er áætlaður neikvæður um 9,3 milljarða króna í júní 2020.

Sjá einnig: Vöru- og þjónustujöfnuður jákvæður

Útflutningstekjur af ferðalögum á öðrum ársfjórðungi hafa dregist saman um 91% á milli ára, á gengi hvors árs fyrir sig. Þær námu 7,1 milljarði króna á þessu ári en um 75 milljörðum árið áður. Útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga drógust saman um tæplega 83%, úr 43 milljörðum króna í 9 milljarða.

Í heildina litið hefur verðmæti útflutnings á þjónustu dregist saman um 60% á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tíma fyrra árs. Verðmæti útflutnings hefur dregist saman um 45%.

Á öðrum ársfjórðungi 2020 er áætlað að verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta nema 216 milljörðum króna samanborið við 328 milljarða á sama tímabili árið áður, 34% samdráttur. Áætlað er að verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta nemi 221 milljörðum á öðrum ársfjórðungi 2020 samanborið við 320 milljarða árið áður, ríflega 30% samdráttur.