Jarðboranir högnuðust um 567 milljónir króna í fyrra. Þetta kemur fram í ársreikningi samstæðunnar en Jarðboranir eiga sjö dótturfélög, Heklu Energy í Holland og Þýskalandi, Iceland Drilling í Portúgal, Bretlandi, Chile, Indónesíu og á Filippseyjum.

Algjör viðsnúningur varð á rekstri Jarðborana milli ára því árið 2012 tapaði fyrirtækið 649 milljónum króna. Rekstrartekjur námu tæpum 6,8 milljörðum króna í fyrra samanborið við 5,3 árið áður. Rekstrarafkoma fyrir afskriftir (EBITDA) nam 1.488 milljónum króna árið 2013 en 292 milljónum árið 2012.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir félagsins tæpum 7,1 milljarði í lok árs 2013 samanborið við ríflega 7,6 milljarða 2012. Skuldirnar lækkuðu um milljarð milli ára. Í loks síðasta árs námu þær tæpum 4,8 milljörðum en voru 5,8 milljarðar árið 2012.

Enginn arður var greiddur til hluthafa á árinu 2014 vegna rekstrarársins 2013.