Jákvæður viðsnúningur varð í rekstri norðlenska fjárfestingarfélagsins KEA svf. en félagið hagnaðist um ríflega 81 milljón króna á síðasta rekstrarári. Árið áður nam tap félagsins 128 milljónum króna.

Fjárfestingartekjur námu 280 milljónum árið 2019 og jukust talsvert frá árinu áður er þær námu 73 milljónum króna. Rekstrargjöld námu 186 milljónum króna og stóðu nánast í stað frá fyrra ári. Eignir fjárfestingarfélagsins námu 8,1 milljarði króna og eigið fé var 7,9 milljarðar króna í árslok 2019.

Skuldir félagsins lækkuðu um ríflega helming, úr 512 milljónum árið 2018 niður í 236 milljónir í lok árs í fyrra. KEA á eignarhlut í fjölda félaga sem flest eru staðsett á Norðurlandi. Félagið á sem dæmi 5,5% eignarhlut í Samkaup sem metinn er á tæplega 358 milljónir í bókum þess. Þar að auki fjárfestir KEA í hlutabréfum sem skráð eru á markað.