Útlán Íbúðalánasjóðs í júní námu um 1,9 milljörðum króna en uppgreiðslur um 1,5 milljörðum. Það sem skýrir viðsnúninginn er hvort tveggja minnkandi uppgreiðslur og aukin útlán þó mestu muni um aukningu útlána. „Það er erfitt að segja í fljótu bragði hvað veldur,“ segir Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, um hvaða útskýringar hann hefur á breytingunum.

Hann segir ýmsar skýringar mögulegar, til að mynda hækkun vaxta á óverðtryggðum lánum bankanna, að kaupendahópurinn sé öðruvísi samsettur og ýmislegt annað sem gæti verið á ferðinni.

Endurskoðuð áætlun

Íbúðalánasjóður endurskoðaði útgáfuáætlun sína fyrir árið 2012 fyrir skömmu. Upprunaleg áætlun gerði ráð fyrir útgáfu skuldabréfa á árinu að andvirði 36-44 milljarða á markaðsvirði. Útgáfan fyrir fyrstu sex mánuði ársins var áætluð um 20-24 milljarðar. Eina útgáfan á fyrstu sex mánuðum ársins var í janúar og nam 5,79 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.