Flugfélagið SAS skilaði góðum hagnaði á síðasta fjárhagsári, en því lauk 31. október sl. Samkvæmt nýbirtum ársreikningi þá var hagnaður fyrir skatta og einskiptiliði 1.170 milljónir sænskra króna, eða um 17,8 milljarðar króna. Félagið tapaði 697 milljónum sænskra króna árið áður en þetta er því gríðarlegur viðsnúningu á rekstri félagsins.

Tekjur jukust um 4,3% milli ára og voru 39,7 milljarðar sænskra króna. Í uppgjörinu skipti eldsneytiskostnaður miklu máli, en kostnaður félagsins lækkaði um 22% milli ára.

Hlutabréf í félaginu hækkuðu um 11%, en þetta er mesta stökk bréfana síðan í janúar sl. Hlutabréfin hafa þó lækkað eftir upphaflega hækkun en þau hafa nú hækkað um 7% frá upphafi dags. Bréf í SAS hafa það sem af er ári hækkað um 48% í kauphöllinni í Stokkhólmi.