Ísland hækkar um eitt sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) yfir samkeppnishæfi þjóða og er nú í 30. sæti á listanum. Í fyrra féll Ísland um sex sæti á listanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem er samstarfsaðili WEF á Íslandi og framkvæmdaraðili rannsóknarinnar hér á landi. Sviss er í efsta sæti listans og í kjölfarið koma Singapúr, Svíþjóð og Finnland.

„Vísitala Alþjóðefnahagsráðsins um samkeppnishæfni er einn virtasti mælikvarði á efnahagslíf þjóða víða um heim. Vísitalan er víðtæk og endurspeglar þá þætti sem segja til um framleiðni þjóða og vaxtarmöguleika,“ segir í tilkynningu Nýsköpunarmiðstöðvar 

Þar segir jafnframt: „Í umsögn Alþjóðefnahagsráðsins um stöðu Íslands segir að eftir að landið hafi fallið um ellefu sæti síðastliðin tvö ár blasi nú við viðsnúningur þar sem landið færist upp um eitt sæti.  Þrátt fyrir erfiðleika að undanförnu nýtur landið góðs af nokkrum sterkum samkeppnisþáttum. Hér er um að ræða þætti eins og menntun á öllum stigum (í 5.sæti og 9.sæti varðandi heilbrigðismál, grunn- og framhaldsmenntun og fagþjálfun), nýsköpunardrifið viðskiptalíf (19.sæti) og aðlögunarhæfni að tækninýjungum sem auka framleiðslugetu (3.sæti). Það hversu sveigjanlegur vinnumarkaðurinn er hefur einnig mikil áhrif (10.sæti). Það sem dregur úr samkeppnishæfni landsins er þrálátur veikleiki efnahagsumhverfisins (131.sæti) og veikur fjármálamarkaður (108 sæti).“