Tryggingamiðstöðin hefur sent frá sér afkomuviðvörun þar sem þeir gera ráð fyrir að afkoman verði um hálfum milljarði króna lakari á þriðja ársfjórðungi en áður var ráð fyrir gert.

Spá fyrirtækisins gerði ráð fyrir að fjárfestingatekjur og aðrar tekjur félagsins á tímabilinu muni nema 215 milljónum króna, en miðað við núverandi raunstöðu verða fjárfestingatekjur og aðrar tekjur neikvæðar á 3. ársfjórðungi á bilinu 225-275 milljónum króna.

Það þýðir að afkoman verður á bilinu 440 til 490 milljónum króna verri en áður var talið, en fyrirtækið segir lang stærsta hluta fráviksins skýrast af óvæntri og verulegri niðurfærslu á gengi fasteignasjóðs.

Einnig er vísað til verri afkomu af hlutabréfum og hlutabréfasjóðum sem skýrist af lækkunum á markaði frá því að spáin var gefin út. Þar sem fjórðungurinn er ekki á enda þá er vitanlega nokkur óvissa í framangreindum tölum.