Skarpgreindur, frjór í hugsun, góður í mannlegum samskiptum og mannasættir er meðal þess sem umsagnaraðilar höfðu að segja um Ásgeir Jónsson, nýjan seðlabankastjóra, í umsögn um hann til forsætisráðuneytisins. Þetta kemur fram í rökstuðningi með ákvörðun forsætisráðherra um að skipa Ásgeir í stöðu Seðlabankastjóra.

Alls sóttu sextán um stöðuna en nefnd um hæfni umsækjenda mat fjóra þeirra hæfasta. Auk Ásgeirs voru í þeim hópi Arnór Sighvatsson, Gylfi Magnússon og Jón Daníelsson. Í rökstuðningi með ráðningu Ásgeirs kemur fram að forsætisráðherra hafi hækkað tvo umsækjendur í flokknum starfsreynsla og tvo umsækjendur í flokknum menntun. Það hafði þó ekki áhrif á röðun fjórmenninganna í flokkinn mjög vel hæfir.

Í kjölfar mats forsætisráðherra voru fjórmenningarnir, auk þeirra fimm sem metnir voru vel hæfir, boðaðir í viðtöl hjá forsætisráðuneytinu. Var það niðurstaðan að Gylfi Magnússon og Ásgeir Jónsson hefðu komið best úr þeim viðtölum.

Þessu næst var óskað eftir umsögnum frá sem gætu veitt upplýsingar um faglega hæfni þeirra, styrkleika, stjórnunareiginleika og samskiptahæfni. Á ný voru það Gylfi og Ásgeir sem komu best úr því mati. Að mati forsætisráðherra kom reynsla Ásgeirs af stjórnun til með að nýtast best í starfi seðlabankastjóra en fram undan er vinna við að sameina bankann og Fjármálaeftirlitið.

„Í umsögnum um Ásgeir kom m.a. fram að hann væri skarpgreindur, víðsýnn, afkastamikill, ritfær, frjór í hugsun, mannasættir og góður í mannlegum samskiptum. Að mati umsagnaraðila hefur Ásgeir reynst farsæll sem stjórnandi, verið vel liðinn, með skýra sýn, sanngjarn en fylginn sér, úrræðagóður og fljótur setja sig inn í hluti. Hann njóti virðingar og hafi lyft þeim einingum sem hann hefur stýrt upp á hærra stig,“ segir í niðurlagi rökstuðningsins .