Standi verkfall háskólamenntaðra starfsmanna Fjársýslu ríkisins enn um miðjan mánuð verða greiðsluseðlar ekki sendir út og sveitarfélög fá ekki um 12 milljarðar útsvarsgreiðslur frá ríkinu. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV . En 28 háskólamenntaðir starfsmenn Fjársýslu ríkisins hefja ótímabundið verkfall á miðnætti annað kvöld.

Verkfall starfsmanna Fjársýslunnar er ótímabundið. Þeir ætluðu í verkfall fyrr í mánuðinum en boðun þess verkfalls var dæmd ólögmæt. Fjársýslan sér um fjármál ríkisins, samræmir reikningsskil ríkisstofnana auk þess að sjá um greiðslumiðlun fyrir ríkissjóð. Í verkfallinu verða greiðsluseðlar fyrir fyrirfram greidda skatta og gjöld ekki sendir út. Reikningana þarf þó að greiða. Verkfallsaðgerðirnar hafa aðallega áhrif á fyrirtæki og verktaka sem greiða skatta sína fyrirfram, þeir þurfa að leita til Tollstjóra og sýslumanna til að borga skattinn.

Reikningar sem eru í lagi og sendir ríkinu verða greiddir, en ef eitthvað er í ólagi við þá fást þeir ekki borgaðir fyrr en kjaradeilan leysist. Laun ríkisstarfsmanna verða þó greidd út.