Serious Fraud Office (SFO), lögreglan í Lúxemborg og embætti sérstaks saksóknara réðust þann 29. mars í víðtækustu húsleitaraðgerðir sem nokkru sinni hefur verið ráðist í í Lúxemborg. Þá réðust 70 manns frá embættunum þremur í húsleitir á fimm stöðum í tengslum við möguleg lögbrot sem framin voru innan Kaupþings fyrir og eftir fall bankans.

Skúli Þorvaldsson
Skúli Þorvaldsson
© vb.is (vb.is)
Sjö starfsmenn sérstaks saksóknara tóku þátt í aðgerðunum á grunni fimm réttarbeiðna sem sendar höfðu verið til Lúxemborgar. Leitað var í fyrirtæki í eigu Skúla Þorvaldssonar, heima hjá Hreiðari Má Sigurðssyni, Magnúsi Guðmundssyni og ráðgjafarfyrirtækinu Consolium, sem er m.a. í eigu Hreiðars Más.

Hópurinn dvaldi í 11 daga í Lúxemborg við haldlagningu gagna og yfirheyrslur. Lagt var hald á annað hundrað kíló af gögnum. Embætti sérstaks saksóknara framkvæmdi einnig húsleitir og yfirheyrslur í Lúxemborg vegna rannsóknar á Kaupþingi vorið 2010.Þá haldlagði embætti um 150 kíló af skjölum og rafrænum gögnum.

Eignir kyrrsettar

Eins og fram kemur í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins voru eignir Skúla , Hreiðars Más og Magnúsar eru á meðal þeirra eigna sem hafa verið kyrrsettar í Lúxemborg. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru eignir fleiri en þeirra þriggja kyrrsettar en ekki hefur fengist staðfest um hverja til viðbótar er að ræða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.