„Á heimsvísu er skinnaiðnaðurinn í miklum blóma. Verðið hefur farið hækkandi og það er ekki nokkur vafi á því að feldflíkur ýmiss konar eru í tísku,“ segir Andreas Lenhart, stjórnarformaður Alþjóðasamtaka skinnaiðnaðarins (ITFT). Veltan í iðnaðinum hefur aukist mikið undanfarin tvö ár. Í fyrra nam heildarsala í skinnaiðnaðinum rúmlega 14 milljörðum dollara, eða sem nemur 1.680 milljörðum króna. Það er rúmlega ein landsframleiðsla Íslands. Hún nemur rúmlega 1.500 milljörðum króna.

Á heimsmælikvarða telst iðnaðurinn ekki til risaiðnaðar. Hann hefur þó farið vaxandi undanfarin tvö ár, að sögn Lenhart. „Vöxturinn var um 5,4% í fyrra og það er útlit fyrir að þetta ár muni einnig ganga vel og vöxturinn verða mikill,“ sagði Lenhart. Árið 2009 námu heildarsölutekjur 13,3 milljörðum dollara og nemur aukning sölutekna því um 700 milljónum dollara, eða um 84 milljörðum króna.

Kuldinn drifkraftur

Skinnaiðnaðurinn er ekki síst drifinn áfram af veðrinu. Kuldinn er þar ekki síst áhrifamikill. Lönd eins og Rússland, þar sem kuldaskeiðin eru löng, eru stór markaðssvæði fyrir feldflíkur af ýmsu tagi. „Markaðurinn í Rússlandi hefur verið að rétta úr kútnum og það hafa verið skýr merki um það undanfarið ár að landið sé í raun komið í gegnum samdráttarskeið,“ segir Lenhart. Líkt og með flesta aðra hrávörumarkaði er það öðru fremur mikil eftirspurn frá ört vaxandi einkaneyslu í Kína sem viðheldur eftirspurn eftir feldum. Uppgangurinn í Kína, sem staðið hefur nær sleitulaust í áratug, er þegar farinn að stýra verði á mörgum hrávörum. Þannig lét Tom Albanese, forstjóri Rio Tinto, hafa eftir sér í viðtali við Viðskiptablaðið er hann kom hingað fyrir jól að verð á hrávöru eins og áli sveiflaðist mikið eftir framleiðslukostnaði í Kína.

Lenhart segir að markaðir í fleiri Asíuríkjum séu að opnast og feldir að verða sífellt vinsælli. Veðrið hefur þó mikið að segja. „Fólk getur ekki klæðst feldflíkum í miklum hita, en sem hrein tískuvara eru feldir vinsælir, líka í heitum löndum.“

Tískuiðnaður

Skinnaiðnaðurinn er beintengdur tískuiðnaði heimsins og hönnun fatalína. Er ekki síst horft til þess hvernig straumar og stefnur hafa áhrif á nýjar fatalínur. Lenhart segir að feldir spili stórt hlutverk í tískulínum fyrir haust- og vetrartískuna 2011 til 2012. „Þetta hefur mikil áhrif á iðnaðinn og hvernig heildarútlitið er fyrir hann a.m.k. ár fram í tímann. Það er gott útlit fyrir næstu mánuði og jafnvel ár.“

Siðferðilegar spurningar

Skinnaiðnaður hefur alltaf verið umdeildur. Einkum og sér í lagi vegna þess að dýraverndunarsinnar hafa talið hann þrífast á illri meðferð á dýrum. „Við finnum að sjálfsögðu fyrir þessum umræðum. Ég tel þó að fólk sé orðið þreytt á því að heyra frá fólki sem er að segja því hvað það á að gera. Fólk vill ráða því sjálft hvað það gerir. Mannfólkið þarf að gera ýmislegt til þess að lifa af á jörðinni, þar á meðal er að lifa af dýrum úr náttúrunni. Bændur í skinnaiðnaði eru sífellt að reyna að bæta sig þegar kemur aðbúnaði og meðferð. Það hefur náðst góður árangur í þessum málum á síðustu árum,“ segir Lenhart.

Greinin birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.