*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 7. janúar 2017 09:01

Viðtekið traust

Traust á fjölmiðlum hefur almennt dalað á undanförnum tveimur árum, en ýmislegt bendir til þess að viðhorfið byggi á fordómum.

Ritstjórn

Markaðsrannsóknafyrirtækið MMR hefur öðru hverju reynt að mæla traust til fréttamiðla. Samkvæmt því hefur traust á fjölmiðlum almennt dalað nokkuð á undanförnum tveimur árum.

Það er annað mál hversu áreiðanlegar slíkar mælingar eru. Ekki vegna þess að MMR kasti til höndunum, heldur eru þetta einfaldlega mjög óræðar stærðir.

Ýmislegt bendir einnig til þess að traust eða vantraust manna á einstökum miðlum kunni að vera viðtekið, jafnvel byggt á fordómum.

Á DV er t.d. magnað vantraust þó útbreiðslan sé svo takmörkuð að efast megi um að margir byggi vantraustið á eigin, nýlegri reynslu. Nokkur munur er t.d. á Mogga (sem þó nýtur mest trausts prentmiðla) og mbl. is án þess að munur á fréttaflutningi þeirra sé verulegur.

Traust á ruv.is er hins vegar litlu minna en á móðurskipinu, þó ruv.is sé frekar slakur vefur og hóflega vinsæll.