Finnur Vilhjálmsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, hugðist lýsa því yfir við fyrirtöku í Aserta málinu í dag að sú háttsemi sem ákært væri fyrir fæli ekki í sér brot á gjaldeyrisreglum sem Seðlabanki Íslands setti í desember 2008. Hann sendi verjendum sakborninga bréf þessa efnis í morgun.

Embættið taldi sumsé að sakborningar hefðu ekki brotið gegn gjaldeyrishöftunum sem sett voru 2008 og eru enn við lýði. Aftur á móti taldi sérstakur saksóknari enn að mennirnir hefðu brotið gegn 1. málsgrein laga númer 8 um gjaldeyrismál. Sú málsgrein er eftirfarandi.

„Seðlabankinn hefur heimild til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri. Öðrum aðilum er óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi nema hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða fengið til þess leyfi frá Seðlabankanum.“

Við fyrirtöku í morgun vísaði dómari hins vegar málinu frá vegna óskýrleika ákærunnar. Því kom ekki til þess að saksóknari þyrfti að lýsa þessu yfir.