*

mánudagur, 16. maí 2022
Innlent 3. nóvember 2019 14:02

Viðurkennir brot gegn sátt

Það lítur út fyrir að það hafi verið gerð mistök og handvömm og við göngumst við því,“ segir forstjóri Póstsins.

Jóhann Óli Eiðsson
Birgir Jónsson tók við sem forstjóri Íslandspósts í júní.
Eva Björk Ægisdóttir

Um áramótin taka gildi ný lög um póstþjónustu en í þeim felst meðal annars að einkaréttur Íslandspósts á dreifingu bréfa undir 50 grömmum verður afnuminn. Samkvæmt lögunum verður einn alþjónustuveitandi en á honum hvílir sú skylda að dreifa bréfum og pökkum á „köldum svæðum“ þar sem vonlaust er að samkeppni myndist um póstþjónustu. Samningaviðræður standa nú yfir milli ÍSP og eiganda þess um hve mikið ber að greiða Íslandspósts fyrir þá þjónustu. Vonast er til að þeim ljúki á næstu vikum svo unnt sé að gera ráð fyrir fjárútlátunum í fjáraukalögum.

„Vinnan er í fullum gangi og ég á ekki von á öðru en að þetta gangi í gegn. Staðan er sú að það er klassískt prútt í gangi. Við höfum reiknað út kostnað af þessu og Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) er að fara yfir hann,“ segir Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts. „Það sem er helst að vefjast fyrir er breyting sem þingið gerði á frumvarpinu um að sama verð skuli vera á alþjónustu um allt land. Eitt land, eitt verð. Sú ákvörðun opnar alls konar spurningar um hvernig þetta eigi að ganga á samkeppnismarkaði.“

Í upphafi árs komst eftirlitsnefndin með samkeppnissátt, sem Íslandspóstur gerði við Samkeppniseftirlitið (SKE), að þeirri niðurstöðu að ÍSP hefði brotið gegn henni með því að sameinast dótturfélaginu ePósti án þess að hafa fengið grænt ljós frá SKE. Endanleg ákvörðun frá SKE vegna þessa liggur ekki fyrir. „Það lítur út fyrir að það hafi verið mistök og handvömm og við göngumst við því. Þetta felur í sér brot gegn sáttinni en ekki beint samkeppnislagabrot. Ég geri ráð fyrir að við munum þurfa að greiða sekt en vona að hún verði ekki há,“ segir Birgir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Íslandspóstur